Í júní mánuði árið 2005 var útvarpað viðtali við þáverandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur um samnig við þáverandi ALCAN um sölu á raforku til ALCAN. Ég hafði ungur atvinnu af því að kanna hagkvæmni staðarvals fyrir orkufrekan iðnað á Íslandi. Starfaði að því verkefni bæði fyrir Orkustofnun og síðar Staðarvalsnefnd um iðnrekstur. Þótti þá strax undarlegt hve mikið var lagt upp úr efnahagslegum ávinningi áliðnaðar á Íslandi. Endalaust var talað um margfeldisárhrif af framkvæmdum og þá miðað við stuðla sem settir voru fram í framhaldi rannsókna á stáliðnaði í Bandaríkjunum á fjórða og fimmta tug síðustu aldar. Þessir stuðlar voru enn notaðir óbreyttir við athugun á áhrifum álbræðslu við Reyðarfjörð sem nú malar eigendum sínum gull en er baggi um fyrirsjáanlega framtíð á íslenskum skattborgurum og almennum orkukaupendum. Að ekki sé talað um sveitarfélög á Austurlandi en þar átti smjör að drjúpa af hverju strái að lokinni Kárahnjúkavirkjun og álbræðslunni í landi Sómastaða við Reyðarfjörð. Lítill sómi hefur orðið af þessu fyrir aðra en starfsmenn álbræðslunnar sem njóta vel og eru vel að komnir.
Í fyrrgreindu viðtali í júnímánuði 2005 var rætt um sölu á raforku vegna stækkunar álbræðslunnar við Straumsvík kenndi margra grasa. Þar var áltrúin áberandi. Ég hef verið hugsi vegna áltrúar Íslendinga. Ofsatrú af ýmsu tagi hefur reynst illa. Ef litið er yfir upphaf stafrófsins má greina að eitt sinn var það ásatrú, svo álfatrú og nú áltrú. Áltrúin hefur grafið um sig smátt og smátt frá því snemma á sjöunda áratug síðustu aldar. Eitthvað sem átti að leysa allan efnahagsvanda Íslendinga um aldir. Efasemdaröddum eins og tildæmis í bók Birgis Björns Sigurjónssonar Frjálshyggjan hefur einfaldlega verið ýtt til hliðar og vísað í smávægileg mistök höfundar um menntun ýmissa heldri manna sem dæmi um hve illa bókin er skrifuð.
Fáfræði fréttamanna lýsti sér ákaflega vel í frétt sem þessari sem tekin er af síðu Orkuveitu Reykjavíkur og umfjöllun um hana:
"http://www.or.is/Forsida/Frettastofan/Nanar/486
„29.6.2005 16:16:00
Samkomulag um 60 milljarða orkusölu til Alcan
"Gert er ráð fyrir að orkan geti verið til afhendingar seinni hluta árs 2010 og að tekjur Orkuveitunnar verði um 60 milljarðar króna á samningstímanum. Áætlað er, að gengið verði frá endanlegum samningi síðar á þessu ári.
Með umræddu samkomulagi hefur Alcan tryggt sér tæplega helming þeirrar orku sem þarf vegna stækkunar álversins. Ákvörðun um að stækka álverið hefur ekki verið tekin en stjórnendur fyrirtækisins, bæði hér á landi og í höfuðstöðvum þess í Kanada, hafa á undanförnum árum lagt mikla vinnu í að leggja mat á verkefnið. Umhverfismat vegna verkefnisins var samþykkt árið 2002 og ári síðar festi Alcan kaup á landi undir stækkaða verksmiðju af Hafnarfjarðarbæ."
Hér vantar það sem fram kom í fréttum á gömlu góðu Gufunni og vísað er til hér að framan, að tilkostnaður yrði um 25 milljarðar. Hér með er almenning ætlað að skilja að um mjög hagstæðan samning sé að ræða. Fjárfesting upp á 25 milljarða skilar 60 milljörðum. Geri aðrir betur!!!
Eftir að hafa farið aðeins yfir málið ritaði ég gömlum kunningja eftirfarandi línur 25. júní 2005:
Enn færist álsólin hærra á loft á Íslandi. Var að hlusta á blessaða Gufuna. Þar var sagt frá samningi Orkuveitu Reykjavíkur um sölu 200MW til Alcan í Straumsvík. Samningurinn á að tryggja Orkuveitunni 60 milljarða á 25 árum og tilkostnaður um 25 milljarðar.
Frá þessum ósköpum er sagt eins og menn hafi gert ógnargóðan samning. En svo er nú ekki. Núvirðisreikningur leiðir til þess að tekjurnar verði neikvæðar um marga milljarða og þá aðeins reiknað með lágum vöxtum. Samningurinn er mjög hagstæður Alcan en reykvískir skattborgarar greiða brúsann.
Ef við gefum okkur það að OR eigi 25 milljarða og leggi í banka til 25 ára þá þurfa vextirnir að vera 3,56% á ári til að afla 60 milljarða að 25 árum liðnum. Þessa vexti er hægt að fá víða og miklu betri en það (þetta var ritað um mitt ár 2005).
Ef við gefum okkur það að OR þurfi að taka lán fyrir þessum 25 milljörðum og þurfi að greiða 5% fasta vexti óverðtryggt þá kostar það nærri 20 milljarða (gert er ráð fyrir lánum til langs tíma á föstum vöxtum. Yrðu sennilega í Bandarískum dölum eða Evrum). Ef litið er á það dæmi aðeins nánar yrði tap á þessu öllu. Gerum ráð fyrir því sem að framan segir. Að láni fengjust 25 milljarðar til 25 ára með 5% ársvöxtum. Ætla verður að þetta yrði jafngreiðslulán þannig yrðu afborganir og vextir 44,5 milljarðar. Ætla verður einnig að rekstur mannvirkja og viðhald kosti eitthvað. Gerum ráð fyrir að það yrðu aðeins tveir hundruðustu af 25 milljarða fjárfestinga (fjárfestingin afskrifuð á 50 árum) þá yrðu fyrst tekjur af framkvæmdinni 23 árum eftir að tekjur af orkusölu hæfust og 28 árum eftir að framkvæmdir hæfust. Í þessum útreikningum er ekki gert ráð fyrir verðbólgu á rekstrartíma orkuversins. Ef við er bætt venjulegri meðal verðbólgu í Bandaríkjunum undafarna áratugi sem sögð er vera um þrír af hundraði yrðu uppsafnaðar tekjur af dæminu neikvæðar um rúmlega einn milljarð eftir 30 ár. Sé gert ráð fyrir skemmri firnangitíma verður dæmið allt enn verra fyrir íslenska skattgreiðendur.
Ef OR leggur 25 milljarða á sæmilegan reikning í bankakerfinu með 4% ársvexti þá yrði til um milljarður á ári til atvinnumála. Atvinnumálin verða jú afsökunin fyrir þessari endaleysu. Með einum milljarði má greiða 400 manns 2,5 mill kr. á ári (208 þús á mán) og 100 manns 10 mkr. á ári (833 þús á mán) í 25 ár. En er það hlutverk OR að skapa atvinnutækifæri. Væri það ekki nær eigendum OR og stjórnvöldum. Hlutverk OR hlýtur að vera að skapa eigendum sínum næga hagkvæma orku án skuldasöfnunar.
Nokkru eftir að þessar hugleiðingar voru ritaðar kom það svo á daginn að Alfreð Þorsteinsson þáverandi stjórnarformaður OR taldi í viðtali að með þessari fjárfestingu væri verið að leggja grunninn að 1500 ársverkum. Hef litla trú á að Alcan ætli að stækka með svo gömlum aðferðum. Þegar Ísal hóf starfsemi sína 1967 var miðað við að ársframleiðsla í Straumsvík yrði 80.000 tonn og um 800 mann fengju atvinnu beint af framkvæmdinni. Nú er risið álver í landi Sómastaða við Reyðarfjörð sem framleiða á 320.000 tonn á ári. Gert er ráð fyrir að þar vinni um 400 manns. Framleiðni og sjálfvirkni í álbræðslum hefur því margfaldast frá því draumurinn um álver í hvern fjörð var kynnt um miðjan sjöunda áratuginn. Væri framleiðin eins og hún var á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar þyrfti nærri 2500 manns til álbræðslunnar við Reyðarfjörð. Með öðrum orðum framleiðnin hefur fjórfaldast. Tæplega hafa launin fjórfaldast.
Þetta er enn eitt dæmið um þennan endalausa áláróður, áltrú, álgyðistrú, stóriðjustefnu sem hvergi hefur birst betur en í iðnþróun Jósefs Stalín í Sovétinu forðum. Og enn dreymir Suðurnesjamenn og Húsvíkinga um ríkisstyrkta atvinnubótavinnu í álverum. Varla eru það Stalínistar sem fara með völd á þessum svæðum landsins?
Ætli allt stóriðjudæmið hafi verið reiknað út eins og OR dæmið hér að framan? Allt frá upphafi. Fjárhagsstaða bæði Landvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur auk Hitaveitu Suðurnesja er bágborin. Ekki stafa það af hruni heldur slæmum rekstri og enn verri rekstraráætlunum. Hér koma margir að. Verkfræðistofur eiga mikilla hagsmuna að gæta við hönnun og byggingu mannvirkja, byggingaverktakar, verkalýðsfélög og sveitarfélög sem halda mikil uppgrip framundan. Svokallaðir hagfræðingar hafa litið á einföld reiknilíkön og spurt stjórnvöld hvaða niðurstöðu þau vilji. Seðlabankinn var lengi innsti koppur í búri Landsvirkjunar, stofnun sem hefði átt að vera utan samninga og aðeins að fara yfir reiknivirki annarra verkfræðinga og hagfræðinga. Þótt allir hafi gleymt núvirðisreikningum sem viðskiptafræðingar virðast kunna öðrum betur.
Orkukaupendur OR fá nú að greiða fyrir öll þessi mistök og lántakendur verðtryggðara lána bæði húsnæðislána og námslána. Þjóðin borgar. Einkarekstur greiddur af skattborgurum er draumur íslenskrar frjálshyggju. Vonum að uppgjör OR við fortíðina verði til þess að slíkt uppgjör verði gert fyrir Landsvirkjun og Álofsatrúboðið.
29 August 2010
13 July 2008
Norður Íshaf
Undanfarið hefur mörgum dottið í hug að Íslendingar eigi rétt til auðlinda í Norður Íshafi. Þarna vaða margir reyk. Íslendingar trúa því að þeir búi norður við Íshaf og má það til sannsvegar færa, en þegar betur er skoðað eru aðrir í vegi okkar að Norðurhöfum. Hér verða á næstunni sett inn nokkur kort sem skýra með hvaða hætti mætti gera tilkall til auðlinda norðan Svalbarða.
09 July 2008
Í útlöndum
Sumir fóru fyrir jól,
fluttust burt úr landi,
heillum snauðir heims um ból
hús þeir byggja á sandi.
Í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.
Halldór Laxness
fluttust burt úr landi,
heillum snauðir heims um ból
hús þeir byggja á sandi.
Í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.
Halldór Laxness
Subscribe to:
Posts (Atom)